Velferdarsjodur-Barna-um-sjodinnVELFERÐ OG HAGSMUNAMÁL BARNA

Velferðarsjóður barna var stofnaður árið 2000 af Íslenskri erfðagreiningu og Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Allt stofnfjármagn sjóðsins, rúmur hálfur milljarður, kom frá Íslenskri erfðagreiningu. Markmið sjóðsins er að hlúa að velferð og hagsmunamálum barna á Íslandi, meðal annars, með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála. Eins og fram kom á stofnfundi sjóðsins: “Sjóðurinn skal stuðla að því að byggja upp barnvænt samfélag. Annars  vegar með fjárframlögum til verkefna og hins vegar með samhliða átaki sem stuðlar að samfélagsbreytingum”.

Í stjórn Velferðarsjóðs barna sitja Kári Stefánsson, forstjóri og fulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, Ingibjörg Pálmadóttir og Kristín Björk Jónsdóttir sem er framkvæmdastjóri sjóðsins.

Fagráð sjóðsins, sem m.a. kemur með tillögur til sjóðsstjórnar um úthlutun styrkja, skipa:  Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, Grétar H. Gunnarsson, Jóhannes Kr. Kristjánsson,  og Inga Dóra Sigfúsdóttir. Sjóðurinn er til húsa að Sturlugötu 8 í Reykjavík.

Yfir 900 milljónum úthlutað frá stofnun sjóðsins árið 2000 til loka ársins 2010.

Frá því að Íslensk erfðagreining stofnaði Velferðarsjóð barna árið 2000, en fyrirtækið var í fararbroddi hvað varðar slíkan styrktarsjóð, hefur verið úthlutað úr honum yfir 900 milljónum króna til margvíslegra verkefna. Þau mikilvægustu eru:

  • Rjóður, endurhæfingar- og hjúkrunarheimili fyrir langveik börn sem starfrækt er í Kópavogi. Velferðarsjóður barna lagði um 110 milljónir til uppbyggingar heimilisins og nú dvelja þar 10 börn í senn yfir lengri eða skemmri tíma. 
  • Mentorverkefnið sem starfrækt var í um 14 ár, er nú rekið af Félagráðgjafadeild HÍ. Velferðarsjóður barna ráðstafaði um kr. 100 milljónum í það verkefni.
  • Styrkir til forvarna og fræðslumyndagerða/leiksýninga; um 15 milljónir.
  • Kennsluefni, fræðslustarf og ráðstefnur fyrir  börn; um 30 milljónir.
  • Styrkir til ýmissa framfaramála; um 60 milljónir.
  • Sumargjafir til barna sem búa við erfiðar aðstæður, styrkir sem veittir eru í samstarfi við Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar og félagsþjónustu 8 sveitarfélaga; um 130 milljónir. Þar með taldir eru styrkir til Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla og ferðastyrkir til félagasamtaka sem fagráð Velferðarsjóðs barna hefur haft umsjón með.
  • Samningur við Félag lesblindra upp á styrkveitingu; samtals kr. 5 milljónir .
  • ABC í Líberíu, til uppbyggingar á skóla og heimavist samtals kr. 24.000.000.
  • Börn í Togo, styrkur að upphæð kr. 4.000.000.
  • Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur sem eru að koma úr meðferð, samtals  kr. 6.000.000.
  • Sérúrræði fyrir börn með tilfinninga- og hegðunarvanda kr. 25.000.000.
  • Sumarúrræði fyrir börn árið 2009: 160 milljónir.
  • Ýmis verkefni í þágu barna, smáir og stærri styrkir, alls 150 milljónir

 

Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna

Velferðarsjóðurinn hefur veitt barnamenningarverðlaun frá árinu 2005, til frumkvöðla í starfi með börnum eða framúrskarandi starfi í þágu barna. Hér fyrir neðan eru verðlaunahafar frá upphafi.

2018

Markús Már Efraím fékk Barnamenningarverðlaun 2018 fyrir ritsmiðjur fyrir börn sem allt að 500 börn hafa sótt. Verðlaununum fylgdi 3,5 milljónir til að starfrækja ókeypis rithöfundaskóla fyrir börn í Gerðubergi. Öll börn máttu skrá sig en börn sem grunnskólarnir töldu að ættu undir högg að sækja voru í forgangi. Markús Már hefur áður fengið eina milljón í styrk til að vera með ritsmiðjur fyrir börn.

2017

Miðstöð foreldra og barna hlaut Barnamenningarverðlaun 2017 fyrir mikilvægt framlag til lífshamingju og fjölskyldna þeirra. Miðstöðin styður foreldra sem eiga við andlega erfiðleika kvíða eða þunglyndi að stríða í aðdraganda og eftir fæðingu barns og eiga erfitt með að tengjast barni sínu. Verðlaununum fylgdi 5 milljóna styrkur til að efla starfsemina.

2016

Þórarinn Tyrfingsson hlaut Barnamenningarverðlaun 2016 fyrir framlag sitt til forvarna og meðferðar á fíknisjúkdómum meðal unglinga á Íslandi og 5 milljóna króna styrk til þess að byrja rannsókn á umfangi og eðli fíkniefnanotkunar unglinga á Íslandi.

2015

Helga Steffensen hlaut Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna fyrir framlag sitt til leiklistar og menningar barna. 

2014

Jóhannes Kr. Kristjánsson, blaðamaður, fékk Barnamenningarverðlaun 2014 og 2 milljóna styrk til að ráðstafa í þágu ungmenna sem glíma við fíknivanda.

Helgi Árnason skólastjóri Rimaskóla fékk Barnamenningarverðlaun 2011, fyrir ötult starf í þágu skák­list­ar sem hluta af skóla­starfi og einnar millj­ónar króna styrk sem átti að skiptast jafnt milli skák­starf­semi í Rima­skóla og Skák­skóla Íslands.

2012

Ásgeir Haraldsson, yfirlæknir Barnaspítala Hringsins fékk Barnamenningarverðlaun 2012 fyrir framúrskarandi framlag í þágu velferðar barna og 1.500.000  styrk til verkefna á barnaspítalanum.

2011

Hrefna Haraldsdóttir foreldraráðgjafi hjá Sjónarhóli hlaut barnamenningarverðlaun 2011 og eina milljón í styrk til að nýta í þágu Sjónarhóls.

Stefán Hreiðarsson forstöðumaður Greiningarstöðvar ríkisins hlaut barnamenningarverðlaun 2011 og eina milljón í styrk til að nýta í þágu greiningarstöðvarinnar.

2010

Sveinn Áki Lúðvíks­son, formaður Íþrótta­sam­bands fatlaðra, hlaut Barna­menn­ing­ar­verðlaun 2010 fyr­ir öfl­ugt starf í þágu ung­menna. Verðlaununum fylgdi tveggja millj­óna króna styrkur til að efla enn frek­ar starf­semi ÍF. 

2009

Þor­björn Jens­son, for­stöðumaður Fjölsmiðjunn­ar hlaut Barna­menn­ing­ar­verðlaun 2009 fyr­ir ómet­an­legt starf sitt í þágu ung­menna og 3,5 millj­ón­a króna styrk til að efla tón­list­ar­deild Fjölsmiðjunn­ar

2008

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra fékk Barnamenningarverðlaunin 2008 fyrir framlag sitt til barnafjölskyldna á Íslandi.

2007

Margrét Pála Ólafsdóttir, skólastjóri og höfundur Hjallastefnunnar, hlaut Barnamenningarverðlaun 2007 og fjárstyrk til að efla starf Hjallastefnunnar.

2006

Njörður P. Njarðvík prófessor og rithöfundur fékk Barna­menn­ing­ar­verðlaun 2006 fyr­ir ómet­an­legt starf til hjálp­ar munaðarlaus­um börn­um í Afr­íku. Verðlaununum fylgdu fjór­ar millj­ón­ir króna, til frek­ari upp­bygg­ing­ar á heim­il­um fyr­ir munaðarlaus börn á veg­um hug­sjóna­fé­lags­ins SPES.

2005

Þór­unn Björns­dótt­ir kór­stjóri Barnakórs Kárs­nesskóla fékk Barna­menn­ing­ar­verðlaun Vel­ferðarsjóðsins 2005 fyr­ir framúrsk­ar­andi starf í þágu barna. Verðlaununum fylgdi ein millj­ón króna, til að hljóðrita efni sem kór­inn hef­ur frum­flutt.