Fulltrúar Miðstöðvar foreldra og barna Stefanía B. Arnardóttir, Helga Hinriksdóttir, Sæunn Kjartansdóttir og Valgerður Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Velferðarsjóðs barna.

REYKJAVÍK 12. DESEMBER 2017

Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna á Íslandi árið 2017 voru veitt í dag, 12. desember, í húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Að þessu sinni voru verðlaunin veitt Miðstöð foreldra og barna, sem að mati sjóðsstjórnar verðskuldar viðurkenningu og stuðning vegna mikilvægs framlags til lífshamingju barna á Íslandi og fjölskyldna þeirra.

Þess utan veitti sjóðurinn styrki til Hjálparstarfs kirkjunnar og Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.

Miðstöð foreldra og barna

Miðstöð foreldra og barna (MFB) styður foreldra sem eiga við andlega erfiðleika kvíða eða þunglyndi að stríða í aðdraganda og eftir fæðingu barns og eiga erfitt með að tengjast barni sínu.

Miðstöðin var stofnuð árið 2008. Hvatinn að stofnun hennar var skortur á úrræðum fyrir foreldra  í ofangreindum aðstæðum. Á Íslandi veitir heilbrigðiskerfið grunnþjónustu sem beinist að líkamlegum þroska barna en MFB er eini aðilinn sem sinnir geðheilbrigðisþjónustu barna frá fæðingu til eins árs aldurs.

Algengt er að fólk sem bíður fæðingar barns þurfi sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu, og fjöldi fjölskyldna sem MFB hefur sinnt á árinu 2017 nálgast 250 og hefur meir en sexfaldast frá 2011.  Vanlíðan foreldra getur haft afgerandi áhrif á þroska og velferð barna og rannsóknir benda til að áföll og streita í æsku auki líkur á áhættuhegðun barna og heilsubresti síðar á ævinni. Það er ljóst að það hljótast af því vandræði fyrir barn að fæðast í faðm móður, sem á í erfiðleikum með þann raunveruleika, sem flestir skynja. Starf MFB miðast við að hjálpa mæðrum, sem eiga við sálrænan vanda að stríða, að skilja tjáningu kornabarna og tengjast þeim eðlilegum böndum. Velferðarsjóður barna á Íslandi veitir miðstöðinni Barnamenningarverðlaun sín fyrir framlag hennar til þessa málaflokks. Verðlaununum fylgir 5 milljóna króna styrkur til að efla starfsemi hennar.

Á fjárlögum yfirstandandi árs voru MFB veittar 20 milljónir króna. En í fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar fyrir 2018 var hins vegar engin fjárveiting til starfseminnar.

Að mati stjórnar Velferðarsjóðs barna gegnir Miðstöð foreldra og barna mikilvægu hlutverki. Stofnendur og starfsfólk hafa nauðsynlega sérþekkingu og starfsreynslu og hafa tekið frumkvæði á sviði heilbrigðisþjónustu, þar sem slíks var brýn þörf. Það er mikilvægt að tryggja áframhaldandi starfsemi miðstöðvarinnar og að hún eflist með rannsóknum á þörfum íslenskra ungbarna og fjölskyldna þeirra.

Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur

Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur hafa árum saman verið fremst í flokki þeirra sem rétta hjálparhönd því fólki sem býr við kröpp kjör og veitir Velferðarsjóður barna stofnunum hvorri um sig 2 milljónir króna til að styrkja þetta mikilvæga starf.

Aldrei er þörfin brýnni en í desember þegar allsnægtaborðið blasir öllum við. En þúsundum er ekki fært að njóta þess óstuddir. Og hlutskipti barnafjölskyldnanna í þeim hópi er sárast.

Anna H. Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur og Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kikjunnar.