Velferðarsjóður barna rak tilraunaverkefni í formi listasmiðju í þremur skólum á höfuðborgarsvæðinu skólaárið 2010-2011. Listasmiðjan fór fram bæði sem almenn leiklistarkennsla á skólatíma í þremur skólum en einnig sem uppsetning nemenda á eigin leikverki. Verkefnið varð til sem svar við kreppuástandi í skólum undanfarin misseri en markmið verkefnisins var að stuðla að og efla þroska barna með því að bæta aðgengi þeirra að list, sköpun og tjáningu. Margar rannsóknir benda til þess að þátttaka í leiklist og tjáningu geti ýtt undir og eflt sjálfsmynd barna. Velferðarsjóðurinn vildi vekja athygli á þessum þætti skólastarfs og lagði til þetta framlag þar sem skólakerfið hefur skorið niður flest slík verkefni.
Höfundasmiðja og leiksýning með börnum á vegum Velferðarsjóðs barna.
Hópur nemenda úr 7. bekk Melaskóla samdi leikritið “Undranóttin” sem frumsýnt var í Iðnó laugardaginn 26. mars kl. 15.00. Nemendur úr Melaskóla, undir stjórn Ingu Bjarnason, komu að öllum hliðum uppsetningar verksins, búningahönnun, lýsingu, tónlist og ljóðagerð. Margrét Kristín Blöndal hafði umsjón með tónlist fyrir verkið og Alda Sigurðardóttir hafði umsjón með búningum og útliti sýningarinnar.
BRÉF FRÁ SKÓLASTJÓRA MELASKÓLA
Í vetur var leiklistarkennsla í skólanum í 4.-7.. bekk. Það var Velferðarsjóður barna sem bauð upp á kennsluna. Hver nemandi í ofangreindum árgöngum fékk kennslu hálfsmánaðarlega því bekkir voru “hálfir” í leiklistartímunum. Kennari var Inga Bjarnason leikstjóri. Kennslan hófst 15. september og stóð til skólaloka.Seint verður með orðum lýst hversu vel heppnuð leiklistarkennslan var og hversu mjög hún höfðaði til barnanna. Ekki síst þeirra sem „áttu undir högg að sækja“ vegna „fatlana“ eða annarra aðstæðna sem gerði þeim „hefðbundið“ nám oft á tíðum erfitt.Melaskóli stendur í mikilli þakkarskuld við Velferðarsjóðinn sem bauð upp á kennsluna endurgjaldslaust. Mikill vilji beggja aðila er á því að halda samstarfinu áfram.Hér að neðan má sjá frétt sem birtist á heimasíðu skólans í lok mars og segir frá leikriti sem spratt upp úr leiklistinni sem kennd var í Melaskóla á liðnu skólaári.
Frétt Melaskóla um uppsetningu leikritsins UNDRANÓTTIN
Hér er lag úr leikritinu UNDRANÓTTIN