Þórarinn Tyrfingsson hlýtur Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2016 fyrir framlag sitt til forvarna og meðferðar á fíknisjúkdómum meðal unglinga á Íslandi. Fíknisjúkdómar eru meðal alvarlegustu heilsufarsvandamála unglinga í íslensku samfélagi. Þeir eru annað hvort langvinnir eða ólæknandi eftir því hvernig þeir eru skilgreindir og minnka gjarnan velferð unglingsins og fjölskyldu hans um ár eða áratugi. Fíkniefnanotkun unglinga fylgir hætta á ýmis konar fylgikvillum eins og lifrarbólgu og öðrum smitsjúkdómum. Fíknisjúkdómar eru líka algeng orsök dauðsfalla meðal unglinga og leiða gjarnan til þess að þeir lenda í útistöðum við lög og reglur samfélagsins. Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að fíknefnaneysla unglinga hefði minnkað umtalsvert en nú er hún að aukast aftur. Undir forystu Þórarins Tyrfingssonar hefur SÁÁ unnið ötullega bæði að forvörnum gegn og meðferð á fíknisjúkdómum meðal unglinga. Það starf hefur oft á tíðum verið það eina sem samfélagið hefur haft upp á að bjóða á þessu sviði og hefur í alla staði verið til fyrirmyndar. Velferðarsjóður barna á Íslandi veitir Þórarni Tyrfingssyni barnamenningarverðlaun sín fyrir framlag hans til þessa málaflokks. Verðlaununum fylgir fimm milljón króna styrkur til þess að byrja rannsókn á umfangi og eðli fíkniefnanotkunar unglinga á Íslandi í þeirri von að niðurstöður hennar verði nýttar til þess að hefja átak í forvörnum og meðferð.

Velferðarsjóður barna hefur veitt um 900 milljónir króna í mál er lúta að velferð barna frá stofnun sjóðsins, árið 2000. Stofnframlagið, rúmur hálfur milljarður króna, kom frá Íslenskri erfðagreiningu. Markmið sjóðsins er að hlúa að velferð og hagsmunamálum barna á Íslandi, m.a. með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála. Markmiðum með stofnun sjóðsins skal náð með beinum fjárframlögum og styrkjum, svo sem greinir í skipulagsskrá Velferðarsjóðs barna. Í stjórn Velferðarsjóðs barna eru: Kári Stefánsson, forstjóri og fulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Valgerður Ólafsdóttir sem einnig er framkvæmdarstjóri sjóðsins.

Fagráð sjóðsins, sem m.a. kemur með tillögur til sjóðsstjórnar um úthlutun styrkja, skipa Þórólfur Þórlindsson, Grétar H. Gunnarsson, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Rósa Guðbjartsdóttir, Inga Dóra Sigfúsdóttir og Þórkatla Aðalsteinsdóttir.