Velferðarsjóður barna hefur ákveðið að styrkja forvarnar- og fræðsluverkefnin Vopnabúrið og Við sem lið sem Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmaður í handbolta er að  hleypa af stokkunum í grunnskólum í Kópavogi. Verkefnið á að hefjast með fyrirlestrum fyrir nemendur, kennara og foreldra í haust en í október fara af stað námskeið sem eru sniðin að þörfum unglinga í áhættuhópum.

Björgvin Páll er löngu landskunnur fyrir afrek sín í íþróttum en hann átti sjálfur ekki auðvelda æsku og þurfti því að ryðja ýmsum hindrunum úr vegi. Hann hefur brennandi áhuga á því að nýta sína eigin reynslu til að hjálpa börnum og unglingum sem standa frammi fyrir sömu áskorunum og hann.

Kári Stefánsson stjórnarformaður Velferðarsjóðs barna tilkynnti um styrkinn sem nemur 4,8 milljónum, 6. ágúst við stutta athöfn í húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Hann sagði einstaklega mikilvægt þegar afreksfólk á borð við Björgvin Pál vildi gefa aftur til samfélagsins og miðla af reynslu sinni til þeirra sem á þurfi að halda. Björgvin Páll segist hafa brunnið fyrir þessu verkefni mjög lengi, féð væri mikilvægt til að hrinda því í framkvæmd en mikilvægara veganesti væri þó að Kári og hans fólk hjá Velferðarsjóðnum hefði trú á verkefninu. Á myndinni eru Valgerður Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Velferðarsjóðs barna og Björgvin Páll.

Sjá frétt á mbl.is