Velferðarsjóður barna veitti þremur milljónum til að styrkja barnastarfið hjá samtökunum Flotta fólk sem aðstoða úkraínskar fjölskyldur á flótta. Það var fyrsta framlagið í landssöfnun samtakanna sem hófst 1. nóvember. Áætlað er að safna 20 milljónum til að tryggja starfsemina næsta árið. Samtökin reka athvarf barna og foreldra frá Úkraínu í Áskirkju, úthlutunarmiðstöð í Neskirkju og Samfélagshús úkraínskra flóttamanna að Aflagranda 40. Samtökin sinna auk þess sálgæslu og læknisþjónustu og hafa skipulagt fjölda viðburða fyrir úkraínskar fjölskyldur sem hingað hafa leitað.

Þetta er í annað sinn sem Velferðarsjóðurinn leggur þessu starfi lið en í mars fengu samtökin 5 milljónir úr sjóðnum til að standa að aðstoð við börn og barnafjölskyldur. Það framlag var veitt í minningu Valgerðar Ólafsdóttur stofnanda og fyrrum framkvæmdastjóra sjóðsins sem féll frá árið 2021. Það er von Velferðarsjóðs barna að þetta framlag verði fyrirtækjum og góðgerðarfélögum hvatning til að leggja sitt að mörkum og tryggja þetta góða starf næsta árið.

Myndatexti: Sveinn Rúnar Sigurðsson tekur við styrknum frá Kára Stefánssyni stjórnarformanni Velferðarsjóðs barna og Kristínu B. Jónsdóttur framkvæmdastjóra sjóðsins.