Velferðarsjóður barna hefur veitt styrki til sex verkefna sem af er ári með það markmið að auka aðgengi barna að mikilvægum stuðningi og þjónustu, stuðla að félagslegri samheldni og almennt bæta lífsskilyrði barna og fjölskyldna þeirra.

Alheimur verkefnið hlaut styrk til að halda viðburð á Barnamenningarhátíð Reykjavíkur en Alheimur ætlar að setja á fót vísindasetur sambærilegt við þau sem finnast erlendis. Markmiðið er að auka vísindalæsi og áhuga barna og ungmenna á vísindum en slæmar niðurstöður úr   PISA, dræmur fjöldi útskrifaðra úr raunvísindagreinum (STEM) úr háskóla og slæm staða drengja í skólakerfinu er hvatinn að verkefninu.

Aþena íþróttafélag hlaut styrk til að fjármagna aukinn stuðning við iðkendur frá efnaminni fjölskyldum og fjölskyldum af erlendum uppruna. Stuðningur verður í formi þess að virkja krakka úr Breiðholti inn í starfið, fylgja þeim eftir og samþætta íþrótta-, félags- og skólastarf. Stuðningur verður einnig í formi þess að vinna með félagsþjónustunni og virkja aðstandendur svo verði til samfélag í kringum börnin. Haustið 2022 fékk Aþena æfingaraðstöðu í Efra-Breiðholti en félagið leggur áherslu á að koma til móts við þarfir stúlkna og ungra Íslendinga af erlendum uppruna.

Brúarskóli hlaut styrk fyrir samstarfsverkefni skólans við KVAN sem þar sem unnið verður með þætti hjá nemendum sem glíma við andlega vanlíðan, svo sem þunglyndi, félagsfælni og kvíða. Brúarskóli er sérskóli fyrir börn í 3.-10. bekk sem eiga í alvarlegum geðrænum-, hegðunar- eða félagslegum erfiðleikum og er tímabundið skólaúrræði með það markmið að efla nemendur og styðja svo þeir verði hæfari til að stunda nám í almennum grunnskóla.

Grænahlíð hlaut styrk til að halda fjölskyldusmiðjur fyrir 10 fjölskyldur þar sem unnið er með tengslaeflandi samskipti og hreyfingu barna og foreldra þeirra en Grænahlíð er sérhæft fjölskyldumiðað geðheilbrigðisúrræði fyrir börn og foreldra með áherslu á snemmtæk meðferðarinngrip með áfalla- og tengslamiðaða nálgun.

Endurhæfingar- og stuðningsmiðstöðin Ljósið hlaut styrk til að halda 8 námskeið fyrir u.þ.b. 40 börn og ungmenni sem eiga aðstandanda sem hefur greinst með krabbamein. Námskeiðin eru upplifunar- og fræðslutímar sem veita stuðning og minnka einangrun en leitast er eftir að efla sjálfstraust þátttakenda og kenna þeim leiðir til takast á við erfiðleika og minnka streitu.

Hjálparstarf Kirkjunnar hlaut styrk sem nýtist um 75 börnum og 30 fjölskyldum þeirra til að ferðast innanlands í sumar. Fjölskyldum er boðið að dvelja í sumarbústað í fjórar nætur með stuðningi til að mæta ferða- og matarkostnaði ásamt afþreyingu.