Velferðasjóður barna veitti um 13 milljónum í að styrkja 200 börn til að sækja námskeið hjá Dale Carnegie á árunum 2016 – 2018.
Eitt af markmiðum Velferðarsjóðs barna er að styrkja börn sem koma úr fjárhagslega og félagslega erfiðri stöðu til ýmissa tækifæra sem þeim annars stæðu ekki til boða. Það hefur sjóðurinn gert meðal annars með sumarstyrkjum, skólastyrkjum og styrkjum til sumardvalar.
Frá árinu 2016 til loka árs 2018 var Velferðarsjóður barna í samvinnu við Dale Carnegie á Íslandi um að styrkja börn til þátttöku á námskeiðum sem ætluð eru til að hvetja og styrkja samskiptafærni og tjáningarhæfni barna. Börn voru valin til þátttöku af kennurum og skólasálfræðingum við skóla viðkomandi barns víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.. Einnig var Hjálparstarfi kirkjunnar, sálfræðiþjónustu barna hjá SÁÁ, Brúarskóla og fleiri stofnunum boðin þátttaka. Dale Carnegie buðu upp á 30% afslátt og nú hafa 164, 10 – 12 ára börn lokið 8 vikna námskeiði, 27 börn á aldrinum 13 – 15 ára. Þá tóku 7 börn þátt vegna eineltis. Á námskeiðunum myndast traust milli barnanna og alfarið er tekið fyrir alla stríðni og útilokun.
Allt fyrsta árið var gerð könnun á árangri hjá börnunum samkvæmt mati foreldra, kennara eða skólasálfræðinga. Heimtur voru misgóðar á svörum en niðurstöðurnar voru alfarið jákvæðar og oft á tíðum var mikil gleði með árangurinn. Markvissar niðurstöður voru um betri líðan og meira sjálfsöryggi hjá börnunum sem luku námskeiðunum.
Hvert námskeið er átta skipti, 3 – 4 kennslustundir í senn. Í lokin höfðu öll börnin kjark til að koma upp og flytja stutta ræðu um sig og hvað þeim sjálfum fannst þau hafa grætt á námskeiðinu. Mörg hver þorðu varla að segja nafnið sitt í fyrsta tímanum. Þess má geta að fjölskyldum barnanna var boðið að koma og fylgjast með hópnum í lokatímanum. Þá koma börnin fram og tala fyrir framan 50 eða fleiri gesti. Mikil vinátta myndast oft í hópunum sem er ákaflega dýrmætt fyrir mörg barnanna. Sum eru einangruð og hafa jafnvel verið lögð í einelti og þá er mikilvægt að hópeflið sem er lykilatriði í hverjum tíma skilar sér gjarnan í sterkum vináttuböndum.
Í samtali við kennara sem sér að mestu um kennslu yngstu barnanna kom í ljós að aðalmarkmiðið er alltaf að ná fram jákvæðari og sterkari sjálfsmynd og ýtt undir að barnið upplifi sig sjálft á jákvæðan hátt og læri að þekkja sína góðu kosti. „Við leggjum mikla áherslu á að börnunum finnist gaman og líði vel hjá okkur. Við viljum styrkja samskiptafærni og tjáningarhæfileika þeirra og áhersla er lögð á hvernig við komum fram við aðra og hvernig við leyfum öðrum að koma fram við okkur. Við leggjum áherslu á að kenna börnunum að tjá skoðanir sínar og standa með sjálfum sér og efla þannig sjálfstraust. Aukið sjálfstraust er lykilmarkmið og við stuðlum að því með þvi að hjálpa börnunum að stíga út fyrir þægindahringinn og upplifa sig og sína frammistöðu á jákvæðan hátt og að finna fyrir stolti yfir sínum árangri. Við notum framsöguæfingar og leikrænar æfingar sem og leiki til þess að ná þessu fram. Við notum eingöngu hrós og jákvæða styrkingu í endurgjöf til barnnanna. Við segjum þeim hvað þau gera vel og hvetjum þau til þess að gera meira af því og kennum þeim jafnframt að einblína á það jákvæða hjá vinum og fjölskyldu. Við sjáum þetta virka! Það verða framfarir í hverjum einasta tíma og í lokatímanum sést árangurinn mjög vel. Þar tjá börnin sig sjálf, blaðlaust, um sinn árangur og hvað þeim finnst námskeiðið hafa gefið þeim“.
Velferðarsjóður barna hefur haft ánægju af samstarfinu við Dale Carnegie, fagmennsku og áhuga kennaranna sem hafa tekið þátt og síðast en ekki síst með að framtakið í heild sinni hefur veitt börnum sem sem búa við erfið kjör tækifæri til þess að blómstra í uppbyggilegu umhverfi en það fellur vel að markmiðum Velferðarsjóðs barna.