Styrkveitingar Velferðarsjóðs barna voru af ýmsu tagi árið 2012. Fyrst má nefna mentorverkefnið Vináttu, en það hefur verið starfrækt á vegum sjóðsins í nær 12 ár. 86 börn og jafnmörg ungmenni tóku þátt í verkefninu að þessu sinni á landsvísu. Meðal annarra verkefna sem sjóðurinn styrkti má nefna leiklistarnámskeið fyrir börn á vegum Lausnarinnar, grasrótarsamtökum sem vinna gegn meðvirkni og sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn á vegum Ljóssins sem er styrktarfélag fyrir krabbameinsgreinda og aðstandenda þeirra. Systkinasmiðjan, styrktarfélag fyrir systkini barna með sérþarfir, fékk styrk til námskeiðahalds og Félag einstæðra foreldra fékk styrk til að halda námskeiðið Meðganga, Móðir, Barn. Einnig má nefna foreldrafélag Klettaskóla, sem fékk styrk til reksturs sumarbúða fyrir fatlaða og Gottman samtökin á Íslandi, sem fengu stryrk til að halda námskeiðið „Að verða foreldri“. Íþróttafélagið Stjarnan í Garðabæ fékk styrk til að standa að fótboltanámskeiðum fyrir fötluð börn og einnig má nefna að Velferðarsjóðurinn styrkti uppsetningu sýningarinnar „Ormurinn ógnarlangi“ á barna og unglingageðdeild Landsspítalans. Hjálparstofnun kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og Akureyrarbæjar fengu styrki til aðstoðar fjölskyldum bæði í skólabyrjun og fyrir jólin. Hér er aðeins stiklað á stóru en samtals námu útgjöld sjóðsins um kr. 35.000.000 á árinu 2012.

Sumargjafir:
Sjóðurinn hefur undanfarin ár varið umtalsverðri fjárhæð til sumargjafa til efnalítilla fjölskyldna og sumarið 2012 styrkti Velferðarsjóður barna um 110 börn til viku sumardvalar í samvinnu við KFUM og K og sumarbúðirnar Ævintýraland. Leitað var leiða til að ná til fjölskyldna á landsvísu og voru sumarúthlutanir sjóðsins alls kr. 17.645.000.

Heiðursverðlaun:
Sérstök heiðursverðlaun voru veitt dr. Valgerði Jónsdóttur, tónlistarþerapista fyrir störf hennar í þágu fatlaðra.

Barnamenningarverðlaun 2012:
Barnamenningarverðlaun Velferðasjóðs barn voru veitt Ásgeiri Haraldssyni, yfirlækni Barnaspítala Hringsins, fyrir framúrskarandi framlag í þágu velferðar barna. Verðlaununum fylgja kr. 1.500.000 til verkefna er lúta að starfssemi Barnadeildar Landsspítala Háskólasjúkrahúss.