Jóhannes Kr. Kristjánsson, fréttamaður, fær Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna á Íslandi árið 2014. Verðlaununum fylgja kr. 2.000.000 sem verða nýttar til að fjármagna vinnu í þágu ungmenna sem glíma við fíkn- og/eða vímuefnavanda. Alls hefur verið úthlutað 36 milljónum úr Velferðarsjóði barna á árinu 2014 en heildarúthlutun frá stofnun sjóðsins nemur nálægt 800 milljónum króna.
Þetta er í 10. sinn sem Barnamenningarverðlaunum Velferðarsjóðs barna á Íslandi er úthlutað og verða verðlaunin veitt við hátíðlega athöfn í Iðnó í dag. Jóhannes KR. Kristjánsson, fréttamaður, hlýtur verðlaunin að þessu sinni en hann stofnsetti sjóð til minningar um dóttur sína Sigrúnu Mjöll Kristjánsdóttur árið 2012 og hefur unnið ötullega í málum viðkomandi fíkniefnavanda unglinga.
Alls veitti Velferðarsjóður barna styrki að upphæð kr. 34.718.754 árið 2014. Til forvarnarstarfs var veitt samtals kr. 6.300.000 og 14.500.000 var varið til að styrkja börn til sumardvalar og í sumargjafir barna í 16 sveitarfélögum landsins. Hjálparstarf Kirkjunnar hlaut hæstan styrk á árinu eða kr. 4.500.000, þar á eftir kemur Vinasetrið sem hlaut kr 3.380.000 en sá styrkur verður greiddur út að hluta til á næst ári. KFUM og K fengu greiddar kr. 3.000.000 fyrir sumardvalir um 100 barna en mótframlag KFUM og K var fjórðungur verðsins. Vímulaus Æska fékk styrk að kr. 2.000.000 til námskeiðahalds fyrir börn og unglinga og Rjóður kr. 1.750.000 en starfsemi þess varð 10 ára á árinu.
Frá stofnun Velferðarsjóðs barna árið 2000 er búið að úthluta alls um 800 milljónum króna til margvíslegra verkefna en þau helstu eru:
- Mentorverkefnið Vinátta sem starfrækt hefur verið á tíunda ár en þátttakendur í verkefninu er nú orðnir nær 1500 talsins; um 120 milljónir.
- Rjóður, endurhæfingar- og hjúkrunarheimili fyrir langveik börn sem starfrækt er í Kópavogi. Þar dvelja 10 börn í senn yfir lengri eða skemmri tíma. Um 110 milljónir hafa þegar verið lagðar í verkefnið.
- Styrkir til forvarna og fræðslumynda/leiksýninga; um 20 milljónir.
- Kennsluefni, fræðslustarf og ráðstefnur til handa börnum; um 30 milljónir.
- Styrkir til ýmissa framfaramála; um 60 milljónir.
- Sumargjafir til barna sem búa við erfiðar aðstæður, styrkir sem veittir eru í samstarfi við Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar og félagsþjónustu 8 sveitarfélaga; um 130 milljónir. (Þar með taldir eru styrkir til Foreldra- og styrktarfélags Öskjuhlíðarskóla og ferðastyrkir til félagasamtaka sem fagráð Velferðarsjóðs barna hefur haft umsjón með).
- Samningur við Félag lesblindra um styrkveitingu; samtals kr. 5 milljónir.
- ABC í Líberíu, til uppbyggingar á skóla og heimavist;samtals kr. 24 milljónir.
- Börn í Togo, styrkur að upphæð 4 milljónir.
- Sérúrræði fyrir börn með tilfinninga- og hegðunarvanda, samtals 25 milljónir.
- Sumarverkefni sumarið 2009: 160 milljónir
- Ýmis verkefni í þágu barna, smáir og stærri styrkir; samtals um 130 milljónir.
Um Velferðarsjóð barna
Stofnfjármagn Velferðarsjóðs barna, rúmur hálfur milljarður króna, kom frá Íslenskri erfðagreiningu. Markmið sjóðsins er að hlúa að velferð og hagsmunamálum barna á Íslandi, m.a. með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála og samtaka og félaga á Íslandi sem hafa velferð barna að megintilgangi. Markmiðum með stofnun sjóðsins skal náð með beinum fjárframlögum og styrkjum, svo sem nánar greinir í skipulagsskrá Velferðarsjóðs barna.
Í stjórn Velferðarsjóðs barna eru: Kári Stefánsson, forstjóri og fulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Valgerður Ólafsdóttir.
Fagráð sjóðsins, sem m.a. kemur með tillögur til sjóðsstjórnar um úthlutun styrkja, skipa Þórólfur Þórlindsson, Grétar H. Gunnarsson, Þórkatla Aðalsteinsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir og Jóhannes Kr. Kristjánsson og Inga Dóra Sigfúsdóttir. Sjóðurinn er til húsa að Sturlugötu 8 í Reykjavík.