Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna árið 2019 fær Kvan fyrir námskeiðið verkfærakistuna sem er ætlað kennurum og öðru fagfólki sem vinnur með börn en markmiðið er að færa kennurum verkfæri til að takast á við einelti og einstaklinga sem glíma við erfið vandamál.

Verðlaununum fylgir 11.250 milljóna króna styrkur til að niðurgreiða námskeiðið að hálfu fyrir 300 þátttakendur. Vel­ferðarsjóður barna hefur áður stutt Kvan verkefnið um 10 millj­ónir.

Velferðarsjóður barna hefur ennfremur ákveðið að styrkja Arnarskóla, sérskóla fyrir börn á einhverfurófi og með aðrar þroskaraskanir, um fimm milljónir króna  til að stækka skólann. Skólinn var stofnaður 2017 en þá voru nemendur fjórir en eru nú tólf og biðlisti er eftir skólavist.  Velferðarsjóðurinn hefur áður styrkt Arnarskóla um 1 milljón til að gera upp skólahúsnæði.

Aðrir sem sjóðurinn ákvað að styrkja á þessu ári eru meðal annars, Ungbarnaleikskólinn Krílasel í Breiðholti sem fékk 1,5 milljónir til framkvæmda á útisvæði og kaupa á þroskaleikföngum Vinasetrið sem fékk rúma 1 milljón til að styrkja börn til að sækja sumarnámskeið. Félag krabbameinssjúkra barna fékk 1 milljón til að nota í rannsókn á framtíðarhorfum barna með krabbamein, Háteigsskóli fékk 550 þúsund krónur til að mæta kostnaði vegna vinaliðaverkefnis sem gengur út á að virkja nemendur sjálfa til að stuðla að virkni í frímínútum, styðja við þá sem eru útundan og vinna gegn einelti. Um 50 skólar á Íslandi taka þátt í verkefninu sem er að norskri fyrirmynd. Hjálparstarf Kirkjunnar fékk 1 milljón til að greiða fyrir sumarnámskeið barna úr efnaminni fjölskyldum, Meðferðarheimilið á Laugalandi fékk 450 þúsund til að halda námskeið í kvikmyndagerð fyrir unglinga á heimilinu, þá fékk Einstök börn, stuðningsfélag barna með sjaldgæfa sjúkdóma 750 þúsund krónur. Rannsóknarsjóður kvenna- og barnasviðs LSH fékk 1.5 milljónir og Mentorverkefnið, 100 þúsund til að styrkja lokahátíð. Þá styrkti sjóðurinn verkefnið Lokbrá, um 1 milljón, en það er tölvuleikur sem á að undirbúa 4 til 6 ára börn undir svæfingu. ADHD samtökin fengu 500 þúsund til að gera fræðsluefni ætlað íþrótta- og tómstundaleiðbeinendum barna. Íþróttafélag fatlaðra fékk 1 milljón til að halda sumarbúðir fyrir börn og 300 000 fóru til að styrkja útgáfu barnabókar um börn og krabbamein þar sem allir ágoði af sölunni rennur til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Brúarskóli, sérhæfður skóli fyrir börn með hegðunarraskanir eða geðraskanir, fékk 1 milljón til að standa straum af sjálfsstyrkingarnámskeiði hjá Dale Carnegie.

Þetta er aðeins hluti af úthlutunum ársins 2019 enda er árið ekki liðið.

Í fyrra, árið 2018 ákvað sjóðurinn að styrkja Markús Má Efraím um 3,5 milljónir til að reka rithöfundaskóla í Gerðubergi, hann hafði áður fengið 1.250 þúsund til að halda ritsmiðjur fyrir börn. Um 40 börn sótti ritsmiðjur hjá Markúsi í litlum hópum fram á sumar og var mikil ánægja með framtakið.

Þá fékk Þjónustumiðstöð Breiðholts 4 milljónir til að ráða talmeinafræðinga til að vinna að svokölluðu TOM verkefni með börnum sem eru á eftir í málþroska á tveimur leikskólum í Breiðholti. Hjólakraftur fékk 1 milljón króna í styrk til kaupa á reiðhjólum fyrir börn sem sækja námskeið hjá félaginu en eiga ekki hjól. Tveir einstaklingar með erfiða fötlun fengu hálfa milljón til að þjálfa hjálparhund. Íþróttafélag fatlaðra fékk 1  milljón til að halda sundnámskeið fyrir fötluð börn, Hjálpræðisherinn fékk 1 milljón til forvarnarstarfs með börnum og unglingum. Vímulaus æska fékk 1 milljón vegna átaks í fjölskylduráðgjöf. Barnaheill fékk 500.000 vegna vináttuverkefnis, Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna fékk 1 milljón, Brúarskóli 1 milljón, Sjónarhóll 1 milljón til verkefna vegna fatlaðra og langveikra barna á landsbyggðinni, Vinasetrið, sem er vettvangur fyrir börn sem þurfa stuðningsfjölskyldur fékk rúma 1 milljón til að styrkja börn til að sækja sumarnámskeið, rúmlega 611 þúsund fóru til að greiða fyrir sálfræðiþjónustu og sérhæfð leikföng fyrir einstaklinga  sem þurftu á að halda, Sveitarfélagið Skagaströnd fékk 300 þúsund til að fá tvo fyrirlesara til að halda erindi í Höfðaskóla um jákvæð samskipti og efla sjálfstraust nemenda. Mæðrastyrksnefnd fékk 1 milljón til að aðstoða bágstaddar mæður og börn fyrir jólin, Félag einstæðra foreldra 60.000.

Þá fékk Hjálparstarf kirkjunnar, 4 milljónir, til að halda sumarbúðir fyrir börn og foreldra í erfiðum aðstæðum, standa straum af sumargjöfum og sumarnámskeiðum og styrkja barnafjölskyldur um jólin.

Þá hefur Velferðarsjóðurinn varið 13 milljónum að styrkja 200 börn til að sækja námskeið hjá Dale Carnegie á árunum 2016 – 2018.  Námskeiðin eiga að hvetja og styrkja samskiptafærni og tjáningarhæfni barna. Börn voru valin til þátttöku af kennurum og skólasálfræðingum víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.

————-

Velferðarsjóður barna var stofnaður árið 2000 af Íslenskri erfðagreiningu og Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Allt stofnfjármagn sjóðsins, rúmur hálfur milljarður, kom frá Íslenskri erfðagreiningu. Markmið sjóðsins er að hlúa að velferð barna á Íslandi, meðal annars, með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála. Sjóðurinn hefur úthlutað um 1100 milljónum til hagsmunamála barna frá stofnun.

Stjórn Velferðarsjóðs barna skipa Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Ingibjörg Pálmadóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra og Valgerður Ólafsdóttir sem jafnframt er framkvæmdastjóri sjóðsins.

Í fagráði Velferðarsjóðs barna sem kemur með tillögur um úthlutanir sitja Þórólfur Þórlindsson, Grétar H. Gunnarsson, Inga Dóra Sigfúsdóttir, Jóhannes Kr. Kristjánsson, Rósa Guðbjartsdóttir, Styrmir Gunnarsson og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir.