Velferðarsjóður barna á Íslandi hefur veitt Erninum, styrktar- og minningarsjóði, Barnamenningarverðlaun 2024 fyrir framúrskarandi starf í þágu barna og ungmenna sem hafa misst ástvin.

Örninn var stofnaður árið 2018 af Heiðrúnu Jensdóttur og Jónu Hrönn Bolladóttur en í dag starfa 40 sjálfboðaliðar hjá samtökunum í þremur landshlutum; á höfuðborgarsvæðinu, á Akureyri og nágrenni og á Egilsstöðum.  

Með samtökunum varð til vettvangur fyrir börn til að segja sögu sína, kynnast öðrum í svipuðum aðstæðum og finna að þau eru ekki ein í sorginni. Meðal verkefna Arnarins eru sumarbúðir, mánaðarlegar samverustundir og listasmiðjur en einnig er boðið upp á samfélag fyrir forráðamenn barnanna þar sem er í boði alls kyns fræðsla sem tengist uppeldi barna í sorg.

Fulltrúar Arnarins fengu afhent viðurkenningarskjal og 2 milljóna króna styrk sem þakklætisvott fyrir mikilvægt framlag þeirra til barnamenningar og samfélagsins í heild. Hefur Örninn með störfum sínum sýnt hvernig skapandi nálgun og hlýlegt umhverfi getur haft styrkjandi áhrif á líf barna og ungmenna sem standa frammi fyrir erfiðum áskorunum.

Starfið er ætlað börnum og unglingum á aldrinum 9-17 ára sem hafa misst náinn ástvin, svo sem foreldri eða systkini. Nánari upplýsingar um skráningu má finna á vefsíðunni arnarvængir.is.

Velferðarsjóður barna óskar Erninum innilega til hamingju og þakkar fyrir mikilvægt starf.